Það er alltaf ákveðið stolt sem færist yfir mig þegar ég sest og skrifa annál Krabbameinsfélags Árnessýslu, þessa öfluga félags sem hefur á síðustu árum vaxið svo gríðarlega og er í dag eitt af öflugri aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands á landsbyggðinni.
Ákvörðun var tekin á fyrsta stjórnarfundi ársins 2024, að leggja áherslu á aðstandendur krabbameinsgreindra á árinu, efla þjónustu við fjölskyldurnar og efna til viðburða sem gætu höfðað til allra. Þessi ákvöðrun var í takti við markmið Bleiku slaufunnar í ár. þar sem kastljósinu var beint að aðstandendum með slagorðinu „Þú breytir öllu“.
Fyrsta verkefnið á árinu var að koma á samstarfi við fjölskyldufræðinga sem einnig hafa viðbótarmenntun, í áfallafræði og var félagsmönnum boðið að sækja meðferð og stuðning í kjölfar krabbameinsgreiningar. Er sá stuðningur til viðbótar við sálrænan stuðning sem félagið hefur boðið félagsmönnum sínum uppá síðustu ár.
Sem fyrr var boðið uppá fjölbreytta fyrirlestra á árinu og má þar meðal annars nefna fyrirlestra um áföll og áfallatengd einkenni, parsambandið, einkenni og meðferð við sogæðabjúg, streitu, réttindamál og umhirðu húðar.
Aðalfundur félagsins var haldinn í apríl og fengum við, Helga Hafstein krabbameinslækni til okkar með fyrirlestur um þá krabbameinsmeðferð og þjónustu sem veitt er á krabbameinsdeild Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Kosning stjórnar fór fram á fundinum og niðurstaðan að stjórnin hélst óbreytt með naumum mun og gaman var að sjá áhuga félagsmanna til að ganga í okkar öflugu stjórn.
Félagsmönnum og aðstandendum var boðið uppá skemmtilegt golfnámskeið á vormánuðum undir faglegri kennslu Alexöndru Eir og Heiðrúnar Önnu, golfkennurum hjá Golfklúbbi Selfoss. Þátttaka var virkilega góð og félagsmenn ánægðir með námskeiðið.
Hin árlega vorferð var farin að þessu sinni, austur í Vík í Mýrdal í byrjun júní með skemmtilegri viðkomu á Skógum þar sem félagsmönnum gafst kostur á að skoða Byggðarsafnið undir skemmtilegri leiðsögn safnvarðar.
Árlegi fjáröflunarviðburður félagsins, Bleika Boðið var haldinn í október á Hótel Selfoss og heppnaðist vel líkt og áður. Enn fleiri fyrirtæki og einstaklingar lögðu okkur lið við viðburðinn og þátttaka samfélagsins var algjörlega frábær.
Stjórninni gáfust mörg tækifæri til að kynna starfsemi félagsins á fundum og viðburðum hjá ýmsum félagasamtökum og naut félagið fjölmargra ríkulegra styrkja til starfseminnar. Öll þjónusta félagsins er félagsmönnum að kostnaðarlausu og veittir eru ýmsir styrkir til félagsmanna í þeirra meðferð og bataferli. Krabbameinsfélag Árnessýslu er nær eingöngu rekið af styrkjum frá félagasamtökum og einstaklingum auk fjáraflana sem félagið stendur fyrir. Án velvilja og styrkja víðsvegar úr samfélaginu, væri félaginu ekki fært um að halda úti þeirri öflugu þjónustu sem raun ber vitni. Árlega er sótt um styrk til Krabbameinsfélags Íslands til að standa straum af hluta af föstum rekstrarkostnaði sem liggur meðal annars í leigu á húsnæði og launagreiðslum starfsmanns.
Endurhæfing á vegum félagsins er ein af mikilvægri þjónustu sem félagið býður uppá. Lögð er áhersla á andlega,-líkamlega,-og félagslega endurhæfingu og eru þátttakendur sammála um að endurhæfingin hafi gert gæfumun í þeirra bataferli.
Að lokum ber að nefna ötult starf sjálfboðaliða innan félagsins. Krabbameinsfélag Árnessýslu er með opið hús þrisvar sinnum í viku þar sem veittur er jafningjastuðningur í félagslegum aðstæðum þar sem umhyggja og vinátta ríkir. Starf sjálfboðaliða innan félagsins er eftirtektarvert og einstakt og er félagið þakklátt öllum þeim einstaklingum sem tilbúnir eru að gefa af tíma sínum, orku og hugulsemi til félagsmanna og starfsemi félagsins.
Á nýju starfsári sjáum við mörg tækifæri til áframhaldandi góðra verka, fjölbreyttra nýjunga og öflugs samstarfs við samfélagið í heild. Eitt af markmiðum félagsins síðustu ár hefur verið að gera félagið sýnilegra og aðgengilegra í samfélaginu, að þjónusta félagsins sé fjölbreytt og krabbameinsgreindir og aðstandendur þeirra nýti sér þann stuðning sem félagið hefur uppá að bjóða.
Fyrsta skrefið í að þiggja þjónustu er alltaf erfiðast en saman erum við sterkari og við viljum vera til staðar fyrir þig.
Með einlægri þökk fyrir líðandi ár og ósk um góðar samverurstundir á komandi ári.
Fyrir hönd stjórnar Krabbameinsfélags Árnessýslu,Svanhildur Ólafsdóttir, formaður
Kommentare